Jólin og aðventan færa okkur flestum gleði og hamingju og gerum við okkur gjarnan dagamun með fjölskyldum og vinum. Því miður verða þó allt of mörg heimili fyrir tjóni um jólin vegna elds, sem getur verið óbætandi. Því er mikilvægt að koma í veg fyrir eldsvoða en einnig að vera tilbúin að bregðast við ef eldur kviknar.
Reykskynjarar eru mikilvægasti þátturinn í að tryggja að eldur uppgötvist á fyrstu stigum, sem nauðsynlegt er til að geta brugðist við ástandinu áður en það verður hættulegt. Fólk er varnarlausast gegn eldi og reyk þegar það sefur. Þess vegna ættir þú að hafa reykskynjara í öllum byggingum sem sofið er í, hvort sem er á heimilinu, í sumarbústaðnum eða húsbílnum. Reykskynjari er ódýr líftrygging.
Hversu marga reykskynjara þarf ég?
Í herbergjum eru oft rafmagnstæki í hleðslu, jólaseríur í sambandi og annað sem skapar eldhættu. ÖRUGG mælir með að hafa reykskynjara í hverju herbergi. Aldrei ættu að vera færri en einn reykskynjari á hverri hæð.
Vöktunarsvæði reykskynjara ætti ekki að vera meira en 60 fermetrar. Fjarlægðin milli tveggja reykskynjara ætti ekki að vera meiri en 12 metrar.
Hvar á ég að staðsetja reykskynjara?
Reykskynjara skal setja í loftið, helst í miðju herberginu, og að minnsta kosti 50 cm frá vegg eða loftræsingu. Ef ekki er hægt að festa reykskynjara í loftið er hægt að setja reykskynjara á vegg um það bil 15 cm frá loftinu, en það getur þá þýtt að það taki lengri tíma áður að fá boð.
Mælt er með samtengdum reykskynjara ef heimilið er á nokkrum hæðum. Þá heyrir fólk hljóðmerki þó svo að reykur sé í herbergi lengra í burtu. Lokaðar dyr geta komið í veg fyrir að það heyrist í reykskynjurum og að fólk vakni.
Með hverjum reykskynjara fylgja leiðbeiningar sem skal fylgja við uppsetningu.
Prófaðu reykskynjara:
- mánaðarlega
- þegar þú setur upp nýjan reykskynjara
- þegar skipt er um rafhlöðu
- þegar þú hefur verið lengi í burtu
- þegar þú hefur hreinsað reykskynjarann
Reykskynjarar eru prófaðir með því að ýta á prófunarhnappinn; þá er öll virkni skynjarans athuguð en ekki bara rafhlaðan.
Ef reykskynjarinn gefur ekki hljóðmerki þegar þú ýtir á prófunarhnappinn gæti verið að rafhlaðan sé búin og þá þarf að skipta um hana. Ef ekki dugar að skipta um rafhlöður þarf að skipta um reykskynjarann sjálfan.
Þegar tími er kominn til að skipta um rafhlöðu gefur reykskynjarinn stutt merki um það bil einu sinni á mínútu.
Best er að eiga vararafhlöður, þannig að hægt sé að skipta um strax og þess gerist þörf.
Hreinsaðu reykskynjara einu sinni á ári eða ef hljóðmerki heyrist að ástæðulausu. Hreinsaðu reykskynjarana með því að ryksuga með mjúkum bursta og þurrka að utan með rökum klút.
Hvernig veit ég hvort reykskynjarinn minn er viðurkenndur?
Allir reykskynjarar skulu vera með CE-merkingu.
Hvar hendi ég notuðum reykskynjara?
Reykskynjarar flokkast sem rafbúnaður eða hættuleg efni, eftir gerð reykskynjarans. Spyrðu starfsmann á endurvinnslustöðinni hvort á við. Fjarlægja skal rafhlöðuna og flokka hana sérstaklega. Einnig á að vera hægt að skila reykskynjara til söluaðila þegar nýr er keyptur.