ENGLISHEN
BRUNI

VIÐ ERUM ÖRUGG

VIÐ HÖNNUM BRUNAVARNIR

BRUNI

ÖRUGG verkfræðistofa byggir á yfir 100 ára reynslu í brunahönnun og brunatæknilegri greiningu á Íslandi og á Norðurlöndum. Brunahönnun hundraða stórra og minni bygginga með fjölbreytta starfsemi. Stór reynslubanki lausna og hvernig hægt er að samtvinna brunavarnir með öðrum hönnunarþáttum.
 • Brunavarnaráðgjöf
 • Brunahönnun bygginga
 • Brunatæknilegar úttektir og ráðgjöf
 • Brunatækilegir útreikningar
 • Deilihönnun brunavarna
 • Ráðgjöf varðandi brunatæknilega útfærslu tæknikerfa
 • Brunahönnun burðarvirkja
 • Vistvænar brunavarnir
 • Fræðsla á sviði bruna- og öryggismála
 • Eigið eftirlit brunavarna og eldvarnarfulltrúi
 • Rýni á brunahönnun og yfirferð fyrir byggingarfulltrúa
Bruna- og reykflæðigreiningar
Hermun á útbreiðslu elds og reyks í þrívíðum tölvulíkönum gerir hönnuðum kleift að sýna fram á virkni brunatæknilegra lausna. Slíkir útreikningar nýtast meðal annars til að meta útbreiðslu elds innan bygginga eða á milli bygginga, reikna brunaáraun burðarvirkja og öruggan rýmingartíma og meta virkni reykræsingar og annarra brunavarna. Þannig má hámarka sveigjanleika í hönnun bygginga og efnisvali, lágmarka kostnað og tryggja öryggi fólks. ÖRUGG býr yfir sérþekkingu á þessu sviði og nýtir til þess nýjustu þekkingu og hugbúnað sem völ er á.
Rýmingargreiningar
Með hermunum á rýmingu bygginga í þrívíðum tölvulíkönum er hægt að hanna flóttaleiðir bygginga með skilvirkum hætti. Skýr mynd fæst af rýmingartíma, fólksflæði, myndun flöskuhálsa og fleiru þess háttar. Hægt er að samtvinna reykflæðiútreikninga og rýmingargreiningar, en þannig má sýna fram á öryggi við rýmingu með nákvæmum hætti. ÖRUGG býr yfir sérþekkingu á þessu sviði og nýtir til þess nýjustu þekkingu og hugbúnað sem völ er á.
Brunahönnun burðarvirkja
ÖRUGG býr yfir sérhæfingu í greiningum á burðarvirkjum við bruna. Brunavarnir burðarvirkja eru mikilvægur öryggisþáttur í byggingum og einnig stór kostnaðarliður fyrir sumar tegundir burðarvirkja, til dæmis stálburðarvirki. Ítarleg greining á áhrifum bruna á burðarvirki getur oft leitt af sér umtalsverða hagræðingu með því að taka tillit til aðstæðna svo sem brunaálags og nýtingarhlutfalls stáls. Á sama tíma fæst betri mynd af því öryggi sem er til staðar og í mörgum tilfellum er hægt að auka öryggi miðað við lausnir samkvæmt forskrift reglugerðar.
Brunahönnun loftræsikerfa
Mikilvægt er að hönnun loftræsikerfa sé með þeim hætti að kerfin rýri ekki brunahólfun bygginga og valdi ekki útbreiðslu reyks umfram það sem er ásættanlegt hverju sinni. Til eru margar mismunandi lausnir til að tryggja ofangreind markmið og mikilvægt er að lausnir taki mið af aðstæðum til að öryggi sé tryggt og kerfið sé hagkvæmt í uppsetningu og rekstri. ÖRUGG aðstoðar loftræsihönnuði við útfærslu brunavarna loftræsikerfa og nýtir til þess nýjustu þekkingu og hugbúnað sem völ er á.
Brunaúttektir
ÖRUGG framkvæmir úttektir á brunavörnum í byggingum. Megináhersla í úttektum er á að koma auga á þætti sem hafa áhrif á öryggi fólks, en einnig má finna þætti sem betur mættu fara varðandi eignavernd eða rekstraröryggi. Starfsmenn ÖRUGG leggja til tímasettar áætlanir um úrbætur í samráði við þarfir viðskiptavina, t.d. varðandi takmörkun á rekstrarstöðvun og rekstrartjóni við bruna.
Vistvænar brunavarnir
ÖRUGG veitir sérfræðiráðgjöf varðandi vistvænar brunavarnir og brunahönnun bygginga. ÖRUGG beitir m.a. áhættugreiningum til að meta umhverfisleg áhrif af bruna og hvernig best sé að hanna brunavarnir þ.a. sem minnst umhverfisáhrif hljótist.
Vistvæn lífræn efni eru almennt brennanleg. Meta þarf áhrif þeirra og hvernig stuðlað verði að slíkri notkun, án þess að öryggi fólks sé ógnað. Með því að greina mismunandi valkosti og bera saman loftslagsáhrif og innihald hættulegra efna er hægt að velja sjálfbærari kosti í efnisvali.
Öryggisúttektir byggingarfulltrúa
Örugg tekur að sér ráðgjöf vegna öryggisúttekta á byggingum. Óheimilt er að taka byggingar í notkun nema þær uppfylli bruna- og öryggiskröfur. Ef brunavarnir byggingarinnar eru ekki að fullu búnar þarf að gera grein fyrir þeim brunavörnum og mótvægisráðstöfunum sem gerðar eru til að tryggja öryggi vegna tímabundinna frávika frá brunavörnum.
Eigið eldvarnareftirlit
ÖRUGG verkfræðistofa setur upp eigið eldvarnareftirlit fyrir stór og smá fyrirtæki. Samkvæmt Reglugerð um eldvarnir og eldvarnareftirlit er eiganda eða eftir atvikum forráðamanni atvinnuhúsnæðis skylt að hafa eigið eftirlit með eldvörnum. Virkt eigið eftirlit stuðlar að því að brunavörnum sé rétt viðhaldið og eykur þannig öryggi fólks og reksturs. ÖRUGG sérsníðir eigið eldvarnareftirlitskerfi að þörfum verkkaupa, allt frá einföldu skráningarkerfi með eyðublöðum og upp í miðlæg tölvukerfi þar sem fleiri aðilar geta haft yfirsýn yfir margar byggingar á einum stað. Þannig geta starfsmenn viðkomandi fyrirtækis sinnt eftirliti sjálfir án utanaðkomandi aðila með tilheyrandi kostnaði.