ENGLISHEN
frettir

BREEAM-vottun ÖRUGG

Verkfræðistofan Örugg er löggilt matsfyrirtæki fyrir vistvottunarstaðlana BREEAM nýbyggingar og BREEAM samfélag.

Við hjá Örugg teljum að sjálfbær þróun sé meðal undirstöðuatriða þegar kemur að skipulagi og hönnun nýs samfélags og mannvirkja. Sjálfbær þróun byggist á jafnvægi umhverfis, samfélags og efnahags, en með markvissum aðgerðum er hægt að ná fram þeim markmiðum sem sett eru af viðkomandi hagaðilum. Fyrir utan ávinning fyrir umhverfið liggur ljóst fyrir að umhverfisvottun leiðir til umtalsverðs sparnaðar og fjárhagslegs ávinnings þegar litið er til lengri tíma. Þetta er því augljóst sóknarfæri fyrir alla hagaðila og við hvetjum þau sem vilja starfa með okkur að umhverfismálum til að hafa samband til að hefja nýja vegferð í bættum umhverfismálum.

Leó Sigurðsson, byggingaverkfræðingur (M.Sc. umhverfisstjórnun) og viðurkenndur BREEAM-vottunaraðili fyrir byggingar og samfélög, segir að það sé mikilvægt og því fylgi mikil ánægja að geta boðið upp á þessar nýju lausnir í umhverfismálum. Til þess að undirstrika mikilvægi þessa er vísað til nýútgefinnar skýrslu* um vegvísinn að vistvænni mannvirkjagerð 2030, þar sem markmiðið er að minnka kolefnislosun bygginga um 43% fyrir árið 2030, úr 359.255 tonnum í 205.469 tonn CO2íg/ári. Til þess að ná þessu markmiði eru ákveðnar aðgerðir einstakra hagaðila, en þar má augljóslega sjá nytsemi vistvottaðra bygginga og samfélaga. Sem dæmi snúa 26 aðgerðir af 74 að umhverfisvottunum, loftslagsvænni byggð og lífsferilsgreiningum. Aðrar aðgerðir tengjast náið ferli umhverfisvottana, t.a.m. notkunartíma mannvirkja og hringrásarhagkerfinu.

Vistvottunarferli nýs samfélags og bygginga er því mikilvægur þáttur þegar kemur að vistvænni hönnun, mótun atvinnulífs, vistvænum samgöngum, lágmörkun umhverfisáhrifa og samfélagsinu í heild. Margir þýðingarmiklir hagaðilar gegna lykilhlutverki þegar kemur að undirbúningi, samráði, samvinnu, ráðgjöf, hönnun og samskiptum og má í þessu sambandi helst nefna fjárfesta, sveitarfélög, stofnanir, fjármálafyrirtæki og ráðgjafa sem tengjast vistvottunarferlinu.

*Vegvísirað vistvænni mannvirkjagerð 2030. Útgefandi: Húsnæðis- og mannvirkjastofnun,fyrir Byggjum grænni framtíð. Reykjavík, 2022.