ENGLISHEN
frettir

Leó Sigurðsson til liðs við ÖRUGG verkfræðistofu

Leó Sigurðsson verkfræðingur hefur gengið til liðs við ÖRUGG verkfræðistofu ehf og mun hann leiða uppbyggingu þjónustu stofunnar á sviðum vinnuverndar og umhverfismála.

Leó er einn reyndasti verkfræðingur landsins á sviði vinnuverndar og umhverfismála við stórar alþjóðlegar framkvæmdir. Hann er með meistaragráðu (MSc) í byggingaverkfræði með sérhæfingu í umhverfis- og öryggisstjórnun frá háskólanum í Álaborg í Danmörku og hefur meira en tuttugu ára starfsreynslu sem umhverfis- og öryggisstjóri hjá stórum alþjóðlegum bygginga- og framleiðslufyrirtækjum.

Leó kemur nú  til starfa hjá ÖRUGG verkfræðistofu frá stærsta verktakafyrirtæki Ítalíu WEBUILD S.p.A, sem sérhæfir sig í byggingu risaverkefna tengdum uppbyggingu sjálfbærra innviða um allan heim. Síðasta verkefni Leós var við byggingu vatnsaflsvirkjunar í Eþíópíu þ.e.  “Grand Ethiopian Renaissance Dam Project” en hún er  byggð  við Bláu Níl  og verður stærsta vatnsaflsvirkjun í Afríku og sú sjöunda stærsta í heimi. Virkjunin er 6000 MW og kostnaður við hana er u.þ.b. 6 milljarðar bandaríkjadala. Þar áður starfaði Leó fyrir WEBUILD í Suður Afríkuvið byggingu vatnsaflsvirkjuninnar “Ingula Pumped Storage Scheme Project” sem endurnýtir vatn við orkuframleiðslu og framleiðir 1100 MW. Einnig starfaði Leó fyrir ítalska verktakafyrirtækið CMC di Ravenna við undirbúning,  framkvæmd og ráðgjöf við fjölmörg alþjóðleg verkefni í Afríku sunnan Sahara og í Nepal. Þau helstu eru “Mozambique Liquified Natural Gas Project ” og “The Massingir Dam” í Mósambík, “Kimwarerand Arrow Multipurpose Dams Projects” í Kenía, “The Rehabilitation and upgrading of Highways between Windhoek and Okahandja” í Namíbía og “The Melamchi Water Supply Project” í Nepal.

Hér á Íslandi starfaði Leó m.a. fyrir Actavis hf og sat hann í framkvæmdastjórn sem sviðsstjóri umhverfis- og öryggismála. Leó breytti vinnuverndar- og umhverfismálum hjá Actavis á Íslandi og sá m.a. um að innleiða umhverfis- og öryggisstjórnunarkerfi sem eru vottuð af alþjóðlegu stöðlunum ISO 14001 fyrir umhverfisstjórnun og ISO 45001 (áður OHSAS 18001) fyrir öryggisstjórnun, ásamt því að innleiða rekstrarsamfelldni áætlanir.

Leó er meðlimur að IOSH í Bretlandi (Institutionof Occupational Safety & Health Practitioners UK), sem eru stærstu alþjóðlegu samtök fagaðila í vinnuvernd.