ENGLISHEN
frettir

ÖRUGG leiðir hönnun nýrra hjúkrunarrýma á Hlíð

ÖRUGG verkfræðistofa varð hlutskörpust í örútboði Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseigna (FSRE) um hönnun 32 nýrra hjúkrunarrýma í álmu 3 á hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri. Tilboð ÖRUGG var metið hagstæðast fyrir verkkaupa samkvæmt skilgreindum valforsendum. Verkefnið nær til rúmlega 1.500 m² og felur í sér forhönnun, gerð aðaluppdrátta og verkhönnun.

Samstarfsaðilar ÖRUGG í verkefninu eru AVH arkitektar, Raftákn og Myrra hljóðstofa. ÖRUGG fer með verkefnastjórn og sér um brunahönnun og hönnun vatnsúðakerfis, auk þess að gegna hlutverki BIM stjóra fyrir hönd samningsaðila.

Verkið byggir á BIM kröfulýsingu FSRE og BIM-aðgerðaáætlun verkefnisins og fylgir leiðbeiningum samkvæmt ISO 19650 staðlinum. Lögð er áhersla á samræmda og markvissa upplýsingamiðlun, skráarheiti samkvæmt leiðbeiningum FSRE, CCI-flokkun byggingarhluta og gæðaprófanir samkvæmt skilgreindum ferlum.

Með þessu verkefni er stigið mikilvægt skref í átt að bættri þjónustu við íbúa og starfsfólk Hlíðar. Ný hjúkrunarrými munu stuðla að betra aðgengi að umönnun, þar sem hönnunin miðar að því að skapa mannvænt, vistvænt og öruggt umhverfi fyrir viðkvæma hópa samfélagsins. Sérstök áhersla er lögð á öryggi, aðgengi og vellíðan íbúa sem og starfsumhverfi sem styður við faglega og örugga umönnun.