ÖRUGG nýsköpun í mannvirkjagerð
Verkfræðistofan ÖRUGG kemur að viðburðinum Nýsköpun í mannvirkjagerð 2025 – IIW2025 með fjölbreyttum hætti. Viðburðurinn fer fram 14. maí næstkomandi og er hliðarviðburður á vegum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) í tengslum við Iceland Innovation Week.
Á dagskrá er fjallað um þróun og nýsköpun í mannvirkjagerð með áherslu á öryggi, sjálfbærni og stafræna umbreytingu – málefni sem eru ÖRUGG hugleikin í daglegu starfi og spegla framtíðarsýn fyrirtækisins um betri og öruggari mannvirki.
Hringrásarhúsið að Frakkastíg 1
Eitt verkefnanna sem kynnt verða á viðburðinum er nýbygging við Frakkastíg 1, kynninguna annast Björt Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Iðu. Þar hefur verið unnið markvisst með hringrásarhugsun, kolefnisspori og nýtingu innlendra byggingarefna. ÖRUGG sá um brunahönnun hússins og vann ítarlega áhættugreiningu vegna frávika frá byggingarreglugerð til að tryggja a.m.k. jafngott öryggi en hefðbundin viðmið krefjast.
Nýting sólarorku í íbúðarhúsnæði – rannsóknarverkefni Silfratjörn
Björn Traustason, framkvæmdastjóri hjá Bjargi íbúðafélagi, mun kynna verkefni sem snýr að nýtingu sólarorku í íbúðarhúsnæði. Um er að ræða rannsóknarverkefni þar sem sólarrafhlöður voru settar upp á fjölbýlishúsi við Silfratjörn. ÖRUGG veitti þar brunatæknilega ráðgjöf og lagði sérstaka áherslu á að samþætta sjálfbæra orkulausn við öflugar brunavarnir. Markmiðið var að tryggja að innleiðing nýrrar tækni færi fram með öryggi og reglugerðarkröfur að leiðarljósi.
Stafræn mannvirkjagerð – erindi fyrir hönd BIM Ísland
Elvar Ingi Jóhannesson, verkfræðingur hjá ÖRUGG og formaður BIM Ísland, mun jafnframt flytja erindi fyrir hönd BIM Ísland. Þar mun hann fjalla um stafræna mannvirkjagerð og þá þróun sem á sér stað í átt að auknu alþjóðlegu samstarfi og samræmingu í stafrænum lausnum innan byggingargeirans. Í erindinu verður farið yfir hvernig aðild Íslands að buildingSMART International styrkir stöðu landsins á alþjóðavettvangi og gerir íslenskum aðilum kleift að taka þátt í mótun opinna staðla og verkferla. Elvar mun jafnframt kynna verkefni BIM Ísland sem miða að hæfnisvottun fagfólks í BIM, auk norræns og evrópsks samstarfs sem Ísland tekur nú virkan þátt í – meðal annars í gegnum Nordic BIM Hub og European openBIM Forum.
Faglegt framlag að framtíð greinarinnar
ÖRUGG leggur áherslu á að taka virkan þátt í verkefnum og samræðu sem stuðla að öruggari og sjálfbærari mannvirkjum. Fyrirtækið sér mikla möguleika í faglegu samstarfi og nýsköpun og telur slíka þátttöku mikilvægan hluta af eigin starfsemi og þróun.
Viðburðurinn Nýsköpun í mannvirkjagerð 2025 – IIW2025 er öllum opinn og má kynna sér dagskrána nánar á hms.is.