ENGLISHEN
frettir

Öryggi í kvikmyndatökum Netflix

Tökur standa nú yfir á Netflix myndinni Heart of Stone. ÖRUGG verkfræðistofa sá um gerð merkingaáætlana vegna götulokana til að tryggja öryggi vegfarenda og tökuliðs.

Um er að ræða einar umfangsmestu lokanir á götum vegna kvikmyndaframleiðslu á Íslandi. Víðtækustu lokanirnar verða í Reykjavík, þar sem m.a. þarf að loka stórum hluta Sæbrautar og fyrir framan Hörpu. Einnig verða tökur við Hallgrímskirkju og um Frakkastíg. Á Álftanesi verður nýi Álftanesvegur lokaður að hluta. ÖRUGG gerði yfir 20 teikningar sem sýna lokanir á mismunandi svæðum og á mismunandi tímum og skilgreindar voru hjáleiðir og upplýsingaskilti til vegfarenda, til að auðvelda umferð eins og kostur væri.

Undirbúningur vegna kvikmyndatöku af þessari stærðargráðu er gífurlegur og á sér langan aðdraganda eins og hefur komið fram hjá samstarfsaðilum okkar hjá TrueNorth, sem sjá um heildarskipulagningu verkefnisins á Íslandi. Uppgangur kvikmyndaiðnaðarins á Íslandi hefur verið mikill og í þessu verkefni verða um 600 manns í tökuliðinu og aukaleikarar á fjórða hundrað.

Stórstjörnunar Jamie Dorn­an og Gal Gadot fara með aðal­hlut­verk í myndinni, sem verður spennumynd í anda Mission Impossible. Þar sem kvikmyndin gerist að hluta til á Íslandi má reikna með að hún verði gríðarleg auglýsing fyrir Reykjavík og Ísland.

ÖRUGG hefur komið að fjölmörgum kvikmyndaverkefnum, þar sem þekking starfsmanna á öryggismálum, brunamálum og vinnuvernd hafa komið að góðum notum.