Alþjóðlega ráðstefna um öryggi jarðganga, International symposium on tunnel safety and security (ISTSS) var haldin í Reykjavík í vikunni. Um er að ræða þriggja daga ráðstefnu sem er sú þekktasta á umræddu sviði öryggismála. Á ráðstefnunni kynnti Böðvar Tómasson hjá ÖRUGG verkfræðistofu grein um öryggi jarðganga á Sæbraut, sem nefnist: Reykjavik's Sæbraut Road Tunnel: Balancing Development and Safety. Meðhöfundar eru Birgir Þór Guðbrandsson, Johan Lundin og Erik Hall Midholm.
Í greininni er fjallað um áhættu vegna bygginga á og við jarðgöngin og hvernig mismunandi hættur og varnir hafa áhrif á áhættuna. Miklir flutningar eru með hættuleg efni um Sæbraut, frá hafnarsvæðunum. Þar sem ítarlegar reglur fyrir innviði, sem tengjast samtvinnun jarðganga og bygginga eru ekki fyrir hendi, hvorki hérlendis né alþjóðlega, hefur verið þörf á nýstárlegum lausnum og áhættugreiningum til að meta nauðsynlegar varnir og öryggi.