ENGLISHEN
frettir

Vindvist í Móahverfi á Akureyri

ÖRUGG verkfræðistofa var fengin af Akureyrarbæ til að gera vindgreiningu og leggja mat á vindvist í tillögu að deiliskipulagi Móahverfis á Akureyri á mynd 1.

Mynd 1. Tillaga að deiliskipulagi Móahverfis, Akureyri.

Vindgreiningin fól í sér hermun á vindi úr 12 vindáttum með tölulegu straumfræðilíkani (CFD) og tölfræðiúrvinnslu á veðurgögnum og er nauðsynleg til að meta vindvist innan skipulagsins.

Vindvist lýsir gæðum umhverfisins m.t.t. staðbundins vindafars og áhrifa þess á þægindi og öryggi fólks sem ræður miklu um hvernig svæði í skipulaginu koma til með nýtast.  

Vindvist í tillögu að deiliskipulagi Móahverfis

Svæði voru flokkuð eftir því hvaða athafnir þóttu hentugar miðað við staðbundið vindafar á hverri árstíð (litakóði á mynd 2) og upplýst var um skjólgóð svæði innan hverfisins, hvort svæði uppfylltu væntingar varðandi nýtingu á hverri árstíð og svæði þar sem vindaðstæður voru ekki ákjósanlegar.

Mynd 2.Vindvist að sumri til fyrir tillögu að deiliskipulagi Móahverfis, Akureyri.

Lykilsvæði í skipulaginu eru m.a. torgrýmið, garðsvæði í inngarðabyggðum, og jarðhæðir bygginga við torgsvæði þar sem gert var ráð fyrir atvinnustarfsemi.

Á torgsvæðinu er vindvist á sumrin þannig að fólki ætti að þykja þægilegt að staldra þar aðeins við og vindvist garðsvæða í inngarðabyggðum bendir til að yfir sumarið verði vindaðstæður þannig að oft verði þægilegt að sitja þar lengi. Gert er ráð fyrir atvinnustarfsemi á jarðhæðum byggingana norðan við torgrýmið og þar er góð vindvist á sumrin sem á að henta fyrir t.d. útisvæði fyrir kaffihús o.þ.h.

Greining á mótvægisaðgerðum

Gerð var hermun á tillögu að mótvægisaðgerðum til að bregðast við vindaðstæðum á nokkrum stöðum í tillögunni að deiliskipulaginu. Breytingar voru gerðar á byggingum sem eru grænar á mynd 3, en einnig var tekið tillit til trjáa sem sýnd eru á myndinni.

Mynd 3. Breytingartillaga að deiliskipulagi Móahverfis, Akureyri.

Hermt var fyrir vindi úr norðanátt þar sem norðanáttin var meðal áhrifamestu vindátta varðandi öryggi fólks í skipulaginu, þægindi fólks á torgsvæðinu að sumri til og við innganga bygginga.

Mynd 4 sýnir vindhraða úr CFD líkani og mynd 5 sýnir umfang svæða þar sem byggingar eru að auka staðbundinn vindhraða. Á myndunum eru niðurstöður breytingartillaga borin saman við upprunalegu tillöguna að deiliskipulaginu.

Mynd 4. Vindhraði í CFD líkani fyrir norðanátt. Upprunaleg tillaga (t.v.), breytingartillaga án trjáa (f.m.) og með trjám(t.h.).

Mynd 5. Svæði þar sem byggingarauka vindhraða. Upprunaleg tillaga (t.v.), breytingartillaga án trjáa (f.m.) ogmeð trjám (t.h.).

Niðurlag

Vindgreining sem gerð var fyrir tillögu á deiliskipulagi Móahverfis, Akureyri, sýndi að vindvist var almennt mjög fín en gat á nokkrum svæðum verið ábótavant bæði m.t.t. þæginda og öryggis fólks. Svæðin í tillögunni þar sem vindaðstæður voru óhagstæðar vegna áhrifa byggðarinnar á vindhraða voru að mestu leyti í N-átt og NNV-átt.

Greining á mótvægisaðgerðum sýndi að hægt væri að fækka svæðum töluvert þar sem byggingar eru að auka vindhraða úr norðanátt, og minnka önnur svæði sem ekki tókst að fjarlægja, m.v. að byggingar eru skv. breytingartillögu og tré eru með ákveðnum eiginleikum og rétt staðsett.

Norðanáttin er mjög áhrifamikil hvað varðar bæði þægindi og öryggi fólks í skipulaginu og því má vænta að breytingartillagan sem inniheldur breytingar á byggingum og trjám gæti bætt vindvist og öryggi fólks.