ENGLISHEN
frettir

Vinnuumhverfi kennara – hvað má gera betur?

Í nýjasta tölublaði Skólavörðunnar, sem er tímarit Kennarasambands Íslands, er grein eftir þær Gunnhildi Gísladóttur iðjuþjálfa, M.Sc og Svövu Jónsdóttur hjúkrunarfræðing en þær eru báðar í öflugu teymi vinnuverndar hjá ÖRUGG verkfræðistofu.

Grein þeirra fjallar um vinnuumhverfi kennara og hvað megi gera betur þar. Samkvæmt Vinnuverndarstofnun Evrópu eru verulegar vinnuverndarhættur í vinnuumhverfi kennara; stoðkerfisvandi vegna langvarandi setu og vegna endurtekinna hreyfinga handleggja og handa, heyrnarskerðing vegna hávaða og sálfélagslegt álag vegna samskipta við nemendur og foreldra. Við hjá ÖRUGG verkfræðistofu höfum verið að skoða þessa þætti sérstaklega hjá kennurum til þess að geta aðstoðað við að koma í veg fyrir þá þróun sem getur orðið í vinnuumhverfi kennara hér á landi. Það er sorgleg staðreynd að 60% allra veikindafjarvista í Evrópu eru vegna verkja í stoðkerfi, sérstaklega í baki og efri útlimum. Þessum veikindafjarverum vegna stoðkerfisvanda fylgir mikill kostnaður fyrir vinnustaði og samfélagið, að ógleymdum einstaklingnum sjálfum.

Koma má í veg fyrir flestan stoðkerfisvanda með einföldum ráðstöfunum, áhættumati og forvarnaáætlunum. Vinnuverndarteymið hjá ÖRUGG verkfræðistofu leiðbeinir og fræðir starfsfólk um bætta líkamsbeitingu, hjálpar fyrirtækjum að búa vel að starfsfólki sínu og fylgir því eftir að vellíðan allra á vinnustaðnum sé eins og best verður á kosið.

En það er fleira sem telst til áhættu í starfi kennara. Sálfélagslegt álag á kennurum er gífurlegt. Flestir kennarar eru í sífelldum samskiptum við börn, foreldra, forráðamenn og margvíslegar fagstéttir sem getur verið flókið og krefjandi og reynir á marga þætti í samskiptahæfni kennara. Nýleg íslensk rannsókn sýnir að þeir sem hafa fallið af vinnumarkaði, hvort sem það er í lengri eða skemmri tíma, hafa frekar þurft að kljást við krefjandi viðskiptavini, þjónustunotendur eða nemendur heldur en það starfsfólk sem helst í starfi.

Öryggismál eru samskiptamál. Sköpun öryggismenningar er ekki einkamál öryggisstjóra eða fámenns hóps, heldur verður sterk öryggismenning til þegar stjórnendur láta sig málið varða og fá alla í lið með sér. Vinnuverndarteymið hjá ÖRUGG verkfræðistofu leggur áherslu á að koma inn á vinnustaði og aðstoða við að koma á góðum samskiptum og vellíðan og fá fram hjá starfsmannahópnum hvað sé hægt að gera til að bæta og efla vinnustaðamenninguna.

Skólavörðuna er hægt að lesa hér: Skólavarðan