ENGLISHEN

Vindgreining körfuboltavallar

Greining á vindi færist sífellt í aukana, enda mikilvægur í þáttur í að hámarka gæði svæða. Ekki er nægjanlegt að tryggja sólrík svæði, ef vindvist með tilliti til fyrirhugaðrar notkunar er ekki góð. ÖRUGG verkfræðistofa hefur mikla reynslu og þekkingu á vindgreiningum og hefur gert fjölda greininga á vindvist í skipulagi sem og nánari útfærslum á einstaka byggingum.

ÖRUGG var nýverið fengin til að meta bestu staðsetningu nýs körfuboltavallar við Glerárskóla á Akureyri með tilliti til staðbundins vindafars. Þrjár mögulegar staðsetningar voru bornar saman.

Tölulegt straumfræðilíkan (CFD) var sett upp til að herma vindflæði í kringum skólann og nærliggjandi byggingar svo að hægt væri að finna bestu staðsetninguna sem myndi tryggja sem flestar þriggja stiga körfur.

Blálituð svæði á myndinni eru svæði þar sem dregur úr vindhraða vegna mannvirkja í kring og rauðlituð svæði eru svæði þar sem vindhraðinn eykst. Greining á veðurgögnum sýndu að á skólatíma voru sunnanáttir (S- og SSA-átt) tíðastar að vetri og hausti, en á sama tíma voru norðaráttirnar (N- og NNV-átt) þó hvassari. Ennfremur, þá var vindur úr þessum fjórum vindáttum í ca. þrjú af hverjum fimm skiptum að vetri til.

Tölfræðileg úrvinnsla greiningarinnar sýndi að skjólsælasta svæðið yrði norðan við skólabygginguna þar sem líkur á því að staðbundinn vindhraði yrði hærri en þröskuldsgildi, voru lægstar fyrir þetta svæði. Bæði veita skólabyggingarnar skjól fyrir sunnanáttunum og auðvelt væri að bæta í trjágróður sem er syðst á íþróttasvæði Þórs.