ENGLISHEN
BLoGG

Eldhætta á heimilum: Af hverju brenna jólatré svona hratt?

Eðlisfræði bruna í jólatrjám

Fyrir marga er jólatréð það sem kemur með jólin inn á heimilið, jólalyktina og huggulegheitin. Jólatré geta þó valdið mikilli hættu, sé ekki rétt hirt um þau. Til dæmis eru í Bandaríkjunum hundruðir bruna tilkynntir árlega í tengslum við jólatré á heimilum [1]. Jólatréð í stofunni getur nefnilega valdið mjög hröðum bruna, sem dreifst getur hratt um stofuna.

Skjákot úr prófunum NIST á bruna í röku og þurru grenitré eftir um 11 sekúndur!

Ef tréð nær að þorna upp þarf enga orku í uppgufun á vatni og getur hitinn því fljótt breiðst út um tréð. Þá byrjar hitaniðurbrot í timbrinu sem myndar gös sem brenna með miklum logum. Þegar kviknar í einni grein, hitar hún þá næstu með varmageislun og varmaburði. Greninálar eru þunnar og margar, sem þýðir að þær hafa gríðarlegt yfirborð sem kemst í snertingu við súrefni. Vegna þess hve loftið leikur auðveldlega um nálarnar, fær eldurinn stöðugt framboð af súrefni, sem veldur því að bruninn eykst með veldisvexti. Hátt yfirborðsflatarmál, mikill þéttleiki milli greina og gott loftflæði milli barrnálanna stuðlar allt að hraðri útbreiðslu brunans. Hefðbundið jólatré getur brunnið með yfir 7 MW brunaafli [4], sem er hraðari bruni en búist má við frá öðrum hlutum á heimilinu [2].

Umhirða og vökvun

Vökvun stofns jólatrjáa er ein besta brunavörn heimilisins á jólunum, þar sem lykillinn að eldfimi trésins liggur í rakastigi þess.Vatnið í stofninum dregst út í greinarnar og barrnálarnar og virkar sem varmagleypir við bruna. Til þess að kviknað geti í timbrinu þarf hitinn fyrst að láta vatnið gufa upp, áður en eldurinn nær að breiðast út. Til þess þarf mikla orku og hita í talsverðan tíma. Það kviknar mun hraðar í þurru timbri en röku timbri.

Skilvirkasta leiðin til þess stuðla til vatnsupptöku trésins er að saga neðan af því nokkra sentimetra og setja stofninn í stand með vatni. Passa skal að aldrei þorni í standinum og tryggja það með daglegri vökvun, og mögulega oftar. Ef upptaka trésins á vatni er að minnka verulega með tímanum er það merki um að tréð sé byrjað að þorna upp [3] og mikilvægt að huga að þeirri hættu. Með réttri umhirðu minnkar hættan frá jólatrjám verulega.

Hér má einnig finna upplýsingar um reykskynjara á heimilum, sem eru mikilvægur hluti brunavarna.

Njótið hátíðarinnar á ÖRUGGan hátt! 🎄

Heimildir

[1] M. S. Hoehler, M. F. Bundy, L.DeLauter, R. Materese, L. Geršković, og J. R. García, „Fire Hazards of DryVersus Watered Christmas Trees“, National Institute of Standards andTechnology, des. 2020. doi: 10.6028/NIST.TN.2131.

[2] „Burning Item Database: Furniture“. Aðgengilegt á: http://www.firebid.umd.edu/database-furniture.php.

[3] Vytenis Babrauskas, Gary Chastagner, og Eileen Stauss, „Flammability of Cut Christmas Trees“, flutt á 2001 IAAI AnnualGeneral Meeting, 2001. Aðgengilegt á: https://doctorfire.com/pages/ChristmasTreeFires.pdf.

Hér má sjá prófun NIST á röku og þurru jólatré.